Barnahjónabönd (hjónaband sem stofnað er til áður en einstaklingur verður 18 ára) eru útbreitt vandamál í Malaví og einn af stærstu þröskuldunum í vegi þróunar. Barnahjónabönd og þunganir unglingsstúlkna eiga sér rætur í hefðum, fáfræði og fátækt. Þegar malavísk ungmenni ganga í hjónaband og eignast börn, er oftast úti um nám og þeirra bíður sjaldnast annað en fátækt, harðræði og ómegð.

Samkvæmt stjórnarskrá mega stúlkur ekki ganga í hjónaband fyrr en þær ná 18 ára aldri, en því ákvæði hefur ekki verið framfylgt af alvöru. Árið 2008 samþykkti þingið að færa aldurinn niður í 15 ár, en forsetinn neitaði að undirrita lögin vegna andstöðu almennings og alþjóðasamfélagsins.

Samkvæmt upplýsingum frá AFIDEP, er Malaví númer 11 í röðinni yfir þau lönd þar sem hlutfall barnahjónabanda er hæst og 9. í röð Afríkuríkja. Tæpur helmingur kvenna, eða 47%, ganga í hjónaband áður en þær ná 18 ára aldri og 12% áður en þær verða 15 ára. Algengt er, að konur eigi sitt fyrsta barn ári eftir að gengið er í hjónaband. Þetta hefur í för með sér, að þunganir unglingsstúlkna eru mjög algengar. Næstum 30% stúlkna á aldrinum 15-19 ára hafa eignast börn. 

Nokkur munur er á tíðni barnahjónabanda og þungunum unglingsstúlkna eftir landshlutum og héruðum. Þetta er algengara í norðurhluta landsins og í suðurhlutanum, þar sem fleiri búa í dreifbýli en í miðhlutanum. 

Sýnt hefur verið fram á beint samband milli barnahjónabanda og þungana unglingsstúlkna annars vegar og menntunar hins vegar. Konur sem ganga mjög ungar í hjónaband og eiga börn, fara á mis við möguleika til menntunar og starfsþjálfunar. Sumir ganga svo langt að halda því fram, að menntun sé sá þáttur sem hefur mest áhrif í að fresta hjónabandi og barneignum. Mikilvægur þáttur í því sambandi er að ábyrgðar foreldra á menntun stúlknanna gætir ekki lengur eftir að þær eru komnar í hjónaband. 

Tengsl hærri tíðni barnahjónabanda og þungunar unglingsstúlkna og lítillar menntunar í dreifbýli en þéttbýli, stafa ekki síst af því að í dreifbýli er meiri skortur á kennsluaðstöðu, menntuðum kennurum og kennslugögnum en í þéttbýli. Það gildir bæði um grunnskóla og framhaldsskóla.

Samband menntunar og barnahjónabanda