Aukin menntun og fjölgun þeirra sem ljúka framhaldsskóla og verklegri þjálfun af einhverju tagi, er lykill að því að breyta ástandinu í landinu. (Malawi Growth and Development Strategy III – bls. xvii).

Samkvæmt þróunaráætlun malavískra stjórnvalda, komust einungis 16% þeirra sem luku grunnskóla áfram í framhaldsskóla árið 2017. Af þeim héldu síðan einungis um 8% áfram í háskóla. Samkvæmt sömu heimild, er sú tilhneiging ríkjandi, að sá hópur sem lýkur framhaldsskóla, en heldur ekki áfram í háskólanám, verði atvinnulaus. Samkvæmt áætluninni, er þörf á að endurskilgreina menntakerfið, með aukinni áherslu á raunvísindi og tæknigreinar (MGDS III – bls. 37).

„Aukinn aðgangur að þjálfun og tækifærum til að auka hæfni, óháð stétt, kynferði, aldri og fötlun, er þungamiðjan í okkar samfélagi til að tryggja hæfnisuppbyggingu og valdeflingu allra Malava, ekki síst þeirra sem eiga undir högg að sækja. Bregðast þarf við skorti á tækniþekkingu til að tryggja Malövum störf og getu til að leggja sitt af mörkum í malavíska hagkerfinu. Endurbætur í menntakerfinu verða því að leggja áherslu á nýsköpun, tækni og vísindi og viðskiptagreinar.‟ (MGDS III – bls. 37-38)

Meðal sérstakra áherslupunkta í sambandi við framhaldsskólann, er að byggja og bæta húsakost, sem taki tillit til kynferðis og sérstakra þarfa; og að veita nemendum sem eiga undir högg að sækja skólastyrki. (MGDS III – bls. 39).

Sérstök áhersla er lögð á verkþekkingu og aðstöðu til að verða sér úti um hana. Áherslupunktar í því sambandi eru m.a. að fjölga þjálfunarmiðstöðvum (training centres for skills development), til að efla þekkingu í iðn- og tæknigreinum. Jafnframt að tryggja sem jafnasta þátttöku kvenna og jaðarhópa í slíkri þjálfun. Stutt verði fjárhagslega við bakið á nemendum sem standa höllum fæti, sérstaklega stúlkum. (MGDS III – bls. 40).