Fyrirhugað er að reisa starfsþjálfunarmiðstöð í Nkosoni, þar sem höfuðstöðvar Kachindamoto eru. Reist verður einnar hæðar bygging (12 x 22 m að flatarmáli,, ásamt þremur tvöföldum kömrum. Bygginguna þarf að hanna með hliðsjón af fyrirhugaðri notkun. Jafnframt er gert ráð fyrir kaupum á húsgögnum og nauðsynlegum tækjum til starfsþjálfunar.

Ekki er gert ráð fyrir því að þetta verkefni hefjist, fyrr en lokið hefur verið við byggingu svefnskálans.

Starfsþjálfunarnámskeið

Gert er ráð fyrir því að þróuð verði 3-4 mánaða starfsþjálfunarnámskeið í trésmíði, logsuðu og járnsmíði, raflögnum, saumaskap, stofnun og rekstur smáfyrirtækja og markaðssetningu. Námskeiðin geta verið fleiri og önnur en hér eru nefnd, en hugmyndin á bakvið þau er að styrkja stöðu viðkomandi á vinnumarkaði. Jafnframt verði útvegað námsefni í þeim greinum sem kenndar verða í miðstöðinni.

Rekstur miðstöðvarinnar

Sett verður á fót stjórn starfsþjálfunarmiðstöðvarinnar, til að stýra daglegum rekstri hennar, skipuð heimamönnum, af báðum kynjum. Stjórnin hefur með að gera ráðningu stjórnanda og kennara í þeim greinum sem kenndar verða.

Námskostnaðarsjóður v/starfsþjálfunarmiðstöðvar

Settur verður á stofn sjóður til að greiða námskostnað nema í starfsþjálfunarmiðstöðinni. Sjóðnum verður kosin stjórn íbúa á svæðinu, af báðum kynjum og hann úthlutar námsstyrkjum á grundvelli reglna sem verða settar áður en sjóðurinn hefur starfsemi.