Um 30 þúsund manns búa í flóttamannabúðum í Dzaleka, rétt utan við Lilongwe, höfuðborg Malaví. Íbúarnir koma frá allmörgum Afríkulöndum og margir hafa búið þar um árabil og takmarkaðar líkur á að þeir komist nokkurn tíma til síns heima. Formaður UMOJA hefur um nokkurra ára skeið starfað með hópi kvenna í búðunum, við markaðssetningu handverks, fjármálastjórn og ýmislegt fleira. Í störfum sínum kynntist hún lífi þessara kvenna og einkum því hversu lítil atriði, eins og aðgangur að fótknúinni saumavél getur ráðið úrslitum um líf og heilsu fjölskyldna kvennanna. Það var í rauninni kveikjan að stofnun félagsins og þessu verkefni.

Dzaleka flóttamannabúðirnar eru staðsettar í Dowa héraði, um það bil 50 km frá höfuðborg Malaví, Lilongwe. Búðirnar voru settar á fót árið 1994 af UNHCR til að bregðast við mikilli aukningu flóttafólks til Malaví frá Burundi, Rúanda og Kongó en þar áður hafði á svæðinu verið starfrækt fangelsi. Í búðunum búa nú um 30 þúsund manns og algengt er að íbúar séu önnur eða þriðja kynslóð sem elst upp í Dzaleka. Það er alþekkt að í aðstæðum sem þessum er staða kvenna viðkvæmari en karla og því er mikilvægt að styðja við valdeflingu kvenna, m.a. með því að gera þeim kleift að afla sér eigin innkomu.

Það að búa í flóttamannabúðum gerir alla hluti erfiða. Sá sjálfsagði hlutur að fara frjáls ferðar sinnar er til dæmis takmökunum háð og það eitt gerir hjálparleysi þeirra enn meira. Þess vegna er utanaðkomandi aðstoð mikilvæg og getur gert gæfumuninn. Það er sammerkt með öllum þessum konum að þær hafa fyrir mörgum munnum að sjá, og má segja að hver og ein hafi 4 til 6 einstaklinga að minnsta kosti á sínu framfæri, oft og tíðum eru þær einstæðar, þó það sé ekki skilyrði fyrir inngöngu í hópana. Það er oft ekki einungis um það að ræða að sjá börnum sínum farboða, heldur eru þær oft með systkini sín, foreldra, frænkur og frændur á sínu framfæri.