Verkefni UMOJA á Íslandi skarast við tvær af fimm lykiláherslum malavískra stjórnvalda, eins og þær birtast í stefnumörkun fyrir árin 2017-2022, þ.e. menntun og verkþekkingu annars vegar og heilbrigði og mannfjölda hins vegar.( The Malawi Growth and Development Strategy III (MDGS) 2017-2222. Útgefið í nóvember 2017 ) Auk lykiláherslanna, eru nokkrir gegnumgangandi áhersluþættir í stefnu stjórnvalda, þar á meðal kynjajafnræði og áherslan á tækifæri ungs fólks. ( MGDS III, bls. xvii. )

1.1.1.   Menntun

Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að fjölga þeim sem ljúka grunnskólanámi (Primary School) og hefja nám í framhaldsskóla (Secondary School). Auk þess þurfi að fjölga þeim sem fari í háskólanám. Með því móti verði hægt að þróa það vinnuafl sem þarf til að koma Malaví upp úr hjólförum efnahagslegrar stöðnunar.

Í stefnumörkun stjórnvalda, er lögð sérstök áhersla á menntun stúlkna og valdeflingu kvenna. ( MGDS III, bls. xvii )

1.1.2.   Heilbrigði

„Bætt heilbrigði er forsenda fyrir aukinni framleiðni þjóðarinnar, auknum hagvexti og minnkun fátæktar‟ ( MGDS III, bls. xix ), segir í þróunaráætlun stjórnvalda. Þar segir jafnframt, að heilbrigði hafi áhrif á fjölmarga aðra þætti, svosem menntun. Fólksfjöldi, þéttleiki búsetu og fólksfjölgun, geta síðan haft neikvæð áhrif á heilbrigði, ekki síst meðal kvenna og barna. „Það er nauðsynlegt að hægja á fólksfjölgun, ef Malaví á að geta haft stjórn á náttúruauðlindum og mannauði. Í MGDS III er því lögð höfuðáhersla á virkar mannfjölda- og þróunaráætlanir á öllum sviðum og aukna vitund um samspilið milli mannfjölda og þróunar.‟ ( MGDS III, bls. xx )