Árið 1966 voru landsmenn um 4,4 milljónir. Hálfri öld síðar hefur mannfjöldinn fjórfaldast. Áætlað er að Malavar hafi verið 17,2 milljónir árið 2017 og samkvæmt spám verða þeir 19,4 milljónir árið 2022. (MGDS III – bls. 1) Tölum ber þó ekki saman, því samkvæmt tölum frá UNFP árið 2019, eru þeir nú þegar 19,7 milljónir. ( https://www.unfpa.org/data/world-population/MW ). Malavar eru ung þjóð og fólksfjölgun er eitt stærsta vandamálið sem við er að etja. Talið er þeim fjölgi um 3% á ári. Verði fólksfjölgun áfram jafn mikil, mun fjöldi landsmanna tvöfaldast árið 2054.

Meðalfjölskyldan er 4,4 einstaklingar, en rannsóknir benda til þess að landsmenn séu að átta sig á þeim vanda sem fólksfjölgunin er. Sömu rannsóknir segja, að þeir telji ákjósanlega fjölskyldustærð vera 3,7.

„Þess vegna er áframhaldandi mikil fólksfjölgun mælikvarði á að nokkur þróunarmarkmið hafi mistekist, þar með talin hátt hlutfall barnahjónabanda, þunganir unglingsstúlkna og skortur á aðgangi og notkun getnaðarvarna.‟ (MGDS III – bls. 47)

Spá um þróun mannfjöldans

A screenshot of a cell phone

Description automatically generated

Næstum helmingur þjóðarinnar (46%) er yngri en 15 ára, 53% yngri en 18 ára og 73% eru yngri en 35 ára. Þetta setur mikinn þrýsting á allt samfélagið og náttúruna að auki, því sífellt þarf meira land til ræktunar og skólakerfið á mjög langt í land með að geta annað þeim fjölda sem er til staðar, hvað þá tekið við fjölgun af því tagi sem er staðreynd í landinu. (MGDS III – bls. xvi og Primary Education in Malawi, World Bank 2016) Á sama tíma liggja líklega stærstu tækifæri Malava til efnahagslegrar þróunar í unga fólkinu.

Lífslíkur Malava hafa batnað mjög mikið á undanförnum árum, ekki síst vegna bættrar heilbrigðisþjónustu, minnkandi mæðra- og ungbarnadauða og árangurs í baráttunni við HIV og útbreiðslu þess. Þannig eru lífslíkur karla 57 ár og kvenna 60 ár. Þrátt fyrir að hafa  batnað umtalsvert á umliðnum árum, eru lífslíkur með þeim lægstu.

Takist að stórefla menntun og verkþekkingu meðal ungs fólks, gæti það leyst úr læðingi gríðarlegan kraft til þróunar og verðmætasköpunar. Það er þó háð því, að á sama tíma takist að draga verulega úr fólksfjölgun.

Verulega hefur dregið úr landbúnaðarframleiðslu, vegna minnkandi landgæða, skóg- og jarðvegseyðingar. Það raskar vatnsbúskap sem hefur áhrif á ástand fiskistofna í annars gjöfulum stöðuvötnum og ám, til viðbótar við gríðarlega ofsókn og ofveiði.

Samkvæmt opinberum tölum, er um fimmtungur Malava atvinnulaus, mest ungt fólk. Atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla. Fátækt er mikil og viðvarandi, mest í dreifbýli. Slíkar aðstæður bitna ekki hvað síst á konum. Samkvæmt opinberum tölum eru 50,7% landsmanna undir fátæktarmörkum (lifa af minna en 1 USD á dag). Þetta hlutfall var 52,4% árið 2005 og þrátt fyrir að hafa minnkað lítillega á þessum tíma, hefur sárafátækum fjölgað á sama tíma, úr 22,4% í 25%. Tekjudreifing hefur versnað á sama tíma. Ójöfnuður, eins og hann er mældur með svokölluðum Gini-stuðli, var 0,39 árið 2005, en 0,45 árið 2016. (MGDS III – bls. 14).

Meðal fullorðinna einstaklinga er læsi talið vera 65,75%. Þar af er talið að 73% karla séu læsir samkvæmt skilgreiningu, en 59% kvenna.

Gríðarlega hröð fjölgun, rýrnun landgæða og miklar takmarkanir á möguleikum til vaxtar haldast í hendur. Því er mikilvægt að rjúfa þennan vítahring. Í því sambandi varðar mestu að draga úr fjölksfjölgun. Samkvæmt rannsóknum, vilja konur ekki eiga jafn mörg börn og áður og með aukinni fræðslu og bættu heilbrigði á að vera hægt að ýta undir þessa þróun. (MGDS III – bls. 16)

Í þeim kafla þróunaráætlunar Malaví sem fjallar um heilbrigði og fólksfjölda, er sérstök áhersla á getnaðarvarnir og fjölskylduáætlanir. Mikil áhersla er  lögð á fræðslu í því sambandi, bæði innan skóla og utan. Jafnframt er áhersla á að auka hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskóla og fjölga atvinnutækifærum. Þróa þurfi lagaramma um fólksfjöldann og móta stefnu. Síðan þurfi að framfylgja lögum gegn skaðlegri hegðun sem hafi neikvæð áhrif á mannfjöldann og þróun, þar með talin barnahjónabönd. Að auki þurfi að berjast gegn ýmsum hefðum og venjum sem hafa neikvæð áhrif í því sambandi. (MGDS III – bls. 50).