Theresa Kachindamoto hefur verið höfðingi Nkosi (Senior Chief) í Traditional Authority Kachindamoto frá árinu 2003, þar sem búa á annað hundrað þúsund manns. Áður en hún tók við því embætti, var hún ritari í Háskólanum í Zomba um 27 ára skeið. Höfðingjar eru valdir eftir erfðafyrirkomulagi, þótt reglurnar geti verið mismunandi á milli landssvæða. Í sumum tilvkum er nokkurt svigrúm til að velja höfðingja, innan ákveðins ramma.

Kachindamoto er yngst 12 systkina og var því engan veginn „næst í röðinni‟ þegar velja þurfti höfðingja. Hún var valin af því að hún var talin lagin að vinna með fólki.

Eitt af því fyrsta sem hún gerði eftir að hún tók við embættinu, var að ferðast um héraðið og heimsækja samfélögin. Henni rann til rifja að sjá allar ungu stúlkurnar, allt niður í 12 ára gamlar, með börn á bakinu. Hér var vitaskuld ekki um ný sannindi að ræða fyrir hana, en hún sá hlutina í öðru ljósi eftir að hún varð að vissu leyti ábyrg fyrir velferð íbúanna. Hún hóf því fljótt að reka áróður fyrir því meðal foreldra, að börn gengju ekki í hjónaband og lykju námi, amk grunnskólanámi og helst framhaldsskóla líka. Þetta skilaði litlum árangri. Foreldrar báru oft fyrir sig að efnhagslega væri mikilvægt fyrir fjölskylduna að þeim fækkaði á heimilinu sem þyrfti að fæða og klæða. Um leið og ungmenni gengi í hjónaband, væri ábyrgðin á þeim þætti í annarra höndum. Auk þess er viðvarandi skortur á kennurum, fullægjandi kennsluaðstöðu og búnaði til staðar, þannig að oft bera foreldrar fyrir sig að það þjóni litlum tilgangi að senda börn í skóla.

Höfðinginn ákvað því að til viðbótar við fortölur og áróður, þyrfti að grípa til harðari aðgerða. Undir hennar stjórn starfa um 50 höfðingjar sem hver um sig hefur með að gera minni einingar og svæði, þorp og klasa þorpa. Að frumkvæði héraðshöfðingjans samþykkti þessi hópur að banna barnahjónabönd í Dedzahéraði. Fyrirkomulagið hafði verið þannig, að þrátt fyrir að stjórnarskrá kveði á um að enginn megi ganga í hjónaband fyrr en hann hefur náð 18 ára aldri, þá hefur verið veitt undanþága frá þessu ákvæði, ef ráðahagurinn er með samþykki foreldra. Héruð geta aftur á móti sett sér strangari reglur.

Ákveðin voru viðurlög ef þorpshöfðingar urðu uppvísir að því að skrifa upp á hjónaband ungmenna undir lögaldri. Í mörgum tilvikum fengu þeir fjárhagslega umbun fyrir hvern þann hjónabandssáttmála sem þeir stimpluðu. Fjóra höfðingja setti hún af, þegar upp komst að þeir hefðu lagt blessun sína yfir barnahjónabönd. Þeir voru síðan settir aftur í embætti, mörgum mánuðum síðar, eftir að staðfest hafði verið að hjónaböndin hefðu verið ógilt.

Þetta nær þó ekki yfir hjónabönd sem eru löggilt af trúarleiðtogum. Höfðinginn hefur gefið út tilskipun um að trúarleiðtogum beri að láta af því að leggja blessun sína yfir slíkt, en ekki liggur enn fyrir hvort og að hve miklu leyti það gengur eftir, amk ekki til skamms tíma.

Formlega þarf ekki að taka langan tíma að brjóta upp barnahjónaband. Þegar upp hefur komist um slíkt, sendir höfðinginn venjulega fulltrúa mæðrahópsins á svæðinu til foreldranna, til að segja þeim að þeir skuli leysa upp hjónabandið. Gangi það ekki eftir innan viku, er hópur öldunga (indunas) úr þorpinu sendur á fund foreldranna í sömu erindum. Gangi það ekki, fer héraðshöfðinginn oftast sjálf á vettvang. Það dugar oftast til.

Að sögn Kachindamoto hafa um 2.600 hjónabönd verið leyst upp frá árinu 2014. Vitaskuld segja tölurnar um fjölda hjónabanda sem leyst hafa verið upp ekki alla söguna um árangurinn af vinnu Chief Kachindamoto. Máttur fælingarinnar er án efa mikill, þannig að telja má víst að fordæmin hafi komið í veg fyrir fjölmörg hjónabönd barna, til viðbótar við þau sem leyst hafa verið upp.

Samkvæmt nýlegum tölum höfðu 50-55% kvenna í Dedza héraði, á aldrinum 20-49 ára, gengið í hjónaband áður en þær urðu 18 ára. Það er með því hæsta í miðhluta landsins, þótt það sé minna en í flestum héruðum í suðurhlutanum. Um 20-25% stúlkna á aldrinum 15-19 ára í héraðinu hafa eignast sitt fyrsta barn. Það er með því minnsta í miðhluta landsins og raunar vel undir meðallagi m.v. landið í heild. (AFIDEP – Child Marriage in Malawi, Fact sheet, Oct 2017). Sé tekið tillit til þess hve sterkt samband er milli stofnunar hjónabands og fæðingar fyrsta barns (yfirleitt um ári eftir að gengið er í hjónaband) (AFIDEP – Child Marriage in Malawi, Fact sheet, Oct 2017), má etv draga þá ályktun að átak héraðshöfðingjans hafi skilað merkjanlegum árangri. Frekari rannsóknir, yfir lengri tíma verða þó að leiða í ljós.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga, að malavísk tölfræði er ekki alltaf mjög nákvæm. Fjöldi íbúa býr á svæðum sem eru í takmörkuðu sambandi við yfirvöld. Fjölskyldusamsetning er oft flókin og erfitt að segja til um hvort ung stúlka er barn, systkin eða eiginkona, svo dæmi séu tekin. Á undanförnum árum hafa engu að síður orðið allmiklar framfarir í söfnun og vinnslu upplýsinga, bæði fyrir tilstilli ýmissa samstarfsaðila í þróunarsamvinnu og með aðstoð betri tækni til að skrá og senda upplýsingar.

Héraðshöfðinginn Kachindamoto hefur lagt höfuðáherslu á að fá samfélögin í lið með sér. Þannig er mikil rækt lögð við mæðrahópa, höfðingjana, öldunga og aðra sem gegna lykilhlutverkum í hinu hefðbundna samfélagi. Hún ferðast um héraðið, hefur með sér hljómsveit sem leikur hefðbundna malavíska tónlist, með textum sem fjalla beinlínis um viðfangsefnið og leikhóp sem útskýrir með leikþætti hvað gerist ef upp kemst um hjónaband ungmenna undir lögaldri. Þetta er algeng aðferð til að miðla upplýsingum (og áróðri) meðal fólks sem hefur takmarkaðan lesskilning.