UMOJA á Íslandi eru styrktarsamtök, stofnuð á fyrri hluta árs 2018. Fyrsta verkefni samtakanna var að kaupa notaðar saumavélar í Malaví og afhenda handverkshópum kvenna í flóttamannabúðunum í Dzaleka. Samtökin voru í raun stofnuð utan um þetta verkefni. Það hlaut nýliðastyrk til þróunarverkefna hjá Utanríkisráðuneytinu sama ár, til þess að hrinda “saumavélaverkefninu” í framkvæmd.

Fljótlega komu upp hugmyndir um að festa félagið í sessi og útvíkka starfsemina. Lögum var því breytt til að ná utan um víðtækari starfsemi og stærri verkefna.

Hluti félagsmanna í UMOJA á Íslandi hefur kynnst aðstæðum fólks í Malaví. Tveir þeirra bjuggu í landinu um fimm ára skeið, á meðan aðrir hafa heimsótt landið um lengri eða skemmri tíma. Það lætur engan ósnortinn. 

UMOJA á Íslandi er stofnað af þessum hópi, auk ýmissa annarra sem hafa sýnt viðfangsefnum samtakanna áhuga. 

Um tilgang samtakanna segir í lögum: Tilgangur UMOJA er að styðja við verkefni sem stuðla að bættum lífskjörum, menntun og valdeflingu ungs fólk í Malaví, með sérstaka áherslu á kynjajafnrétti. 

Stjórnarmenn hafa nær allir komið til Malaví og tekið þátt í verkefnum sem miða að því að bæta líf fátæks fólks í landinu.