Formaður UMOJA starfaði sem sjálfboðaliði í Dzaleka. Starfið fólst í að aðstoða kvennahópinn UMOJA women‘s craft group við að markaðsetja vörurnar sínar og koma þeim á markað út fyrir búðirnar, ásamt því að veita þeim stuðning og ráðgjöf við að þróa hugmyndir að nýjum vörum og að sjá um bókhald og fjársýslu fyrir hópinn. Eftir að formaður UMOJA flutti til Íslands árið 2017 hefur hún haldið sambandi við konurnar beint og verið þeim til ráðgjafar.

Vörurnar sem UMOJA framleiðir eru m.a. handsaumaðar innkaupatöskur og netapokar sem koma í staðinn fyrir plastpoka. Þannig stuðlar verkefnið ekki einungis að því að valdefla konur heldur einnig að því að minnka daglega notkun á plasti.

Töluverðar áskoranir eru fyrir hendi þegar kemur að starfsemi hópanna. Áður en UMOJA á Íslandi hóf stuðning við hópinn, átti hann aðeins eina saumavél sem þær 60 konur sem tilheyra hópnum skiptust á að nota.

UMOJA á Íslandi sótti um stuðning til Utanríkisráðuneytisins til að festa kaup á 10 fótstignum saumavélum fyrir starfsemi kvennanna. Þær voru afhentar í tvennu lagi; á Þorláksmessu 2018 og í nóvember 2019. Myndir af afhendingunum eru hér.

Í allri þessari vinnu er rauði þráðurinn að efla konurnar sjálfar til sjálfbjargar, það séu þær sem taki allar megin ákvarðanirnar og beri ábyrgð á þeim.  Þær hanna sjálfar og útfæra vörurnar og verðleggja  sína vinnu. Lögð er áhersla á það að þær sjái hagnaðinn í því að skapa handverkið og verðleggi vinnuafl sitt.