Einn af þröskuldunum í vegi fyrri því að stúlkur sæki framhaldsskóla, er fjarlægð frá heimili og jafnvel þótt skólinn sé ekki nema í nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimili, eru margvíslegar hættur á leiðinni. Stúlkurnar eru útsettar fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi, auk þess sem sums staðar geta hættuleg dýr orðið á vegi þeirra. Þetta dregur mjög úr aðsókn stúlkna í framhaldsskóla – og því meira sem fjarlægðir eru meiri.

Meðal áhersluatriða stjórnvalda til að auka aðgengi stúlkna að menntun, er að tryggja að þær þurfi ekki að fara langan veg til að sækja skóla. Í því sambandi er sérstök áhersla lögð á gistiaðstöðu, þannig að þær þurfi ekki að fara heim til sín að loknum skóladegi.

Svefnskáli í Mtakataka

Ráðgert er að reisa svefnskála fyrir 60 stúlkur við framhaldsskólann í Mtakataka. (Mtakataka Community Day Secondary School – CDSS) Jafnframt verða keypt rúm og húsgögn. Auk þess verða byggðir þrír tvöfaldir kamrar.

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist þegar sér fyrir endann á fjármögnun.

Kostnaður við að reisa svefnskála fyrir 60 stúlkur við framhaldsskólann í Mtakataka, ásamt salernum og nauðsynlegum húsbúnaði, er áætlaður um 9,5 milljónir íslenskra króna. Byggt er á stöðluðum uppdráttum sem hafa reynst vel.